Upp­gjör: Stjarnan - KR 5-3 | Endur­koma KR-inga hófst of seint gegn Stjörnunni

Hjörvar Ólafsson skrifar
Stjörnumenn höfðu ástæðu til að fagna í Garðabænum í kvöld. Komnir áfram í bikarnum.
Stjörnumenn höfðu ástæðu til að fagna í Garðabænum í kvöld. Komnir áfram í bikarnum. Vísir/Pawel

Stjörnumenn lögðu KR-inga að velli með fimm mörkum gegn þremur þegar liðin áttust við í 16 liða úrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta á Samsung-vellinum í Garðabænum í kvöld.

Stjarnan verður því í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslitin ásamt Víkingi, KA, Þór, Keflavík, Fylki og Aftureldingu eða Val og Fram eða ÍH sem mætast í lokaleikjum 16 liða úrslitanna annað kvöld.

Atvik leiksins

Í upphafi leiksins varð Stjarnan fyrir skakkafalli þegar Hilmar Árni Halldórsson þurfti að yfirgefa völlinn sökum þess að hann tognaði aftan í læri. Hans stað inni á miðsvæðinu tók ungstirnið Helgi Fróði Ingason sem farið hefur vel af stað hjá Stjörnuliðinu á keppnistímabilinu.

Stjarnan komst svo yfir eftir rúmlega 20 mínútna leik en Örvar Eggertsson nýtti sér þá mistök Rúriks Gunnarssonar sem sendi lausa sendingu aftur á Guy Smit. Örvar komst inn í sendinguna og kláraði færið af stakri prýði.

Þegar um það bil hálftími var liðinn af leiknum jafnaði Axel Óskar Andrésson svo metin. Axel Óskar tók þá boltann laglega niður við vítateigslínuna og þrumaði boltanum fagmannlega í fjærhornið. Axel Óskar var eins og framherji í þessu marki.

Staðan var 1-1 eftir skemmtilegan fyrri hálfleik þar sem bæði lið fengu fín færi til þess að bæta við mörkum. Mörkunum rigndi svo inn í blíðviðrinu í Garðabænum í seinni hálfleik. 

Stuðningsmenn liðanna voru vart búnir að koma sér fyrir í stúkunni þegar Örvar Eggertsson var búinn að ná forystunni fyrir heimamann á nýjan leik. Stjörnumenn splúnduðu vörn KR-liðsins og Óli Valur Ómarsson fann Örvar á fjærstönginni. Örvar kláraði færið mjög vel.

Skömmu síðar missti KR máttarstólpa úr vörninni en Axel Óskar þurfti þá að yfirgefa völlinn vegna meiðsla sem hann varð fyrir á ökkla í fyrri hálfleik.

Til þess að bæta gráu ofan á svart fyrir svarthvíta liðið úr Vesturbænum jók Guðmundur Baldvin Nökkvason forystu Garðabæjarliðsins nokkrum mínútum seinna. Róbert Frosti Þorkelsson lagði boltann þá út á Guðmund Baldvin sem setti boltann í netið af stuttu færi.

Flestir héldu að Óli Valur væri að reka síðasta naglann í líkkistu KR-liðsins þegar hann bætti fjórða marki Stjörnunnar við er tæplega korter var eftir af leiknum. Adolf Daði Birgisson, sem var tiltölulega nýkominn inná sem varamaður, þræddi þá Óla Val í gegn og bakverðinum knáa brást ekki bogalistin.

Benóný Breki Andrésson hleypti svo spennu í leikinn undir lok leiksins en hann skoraði tvö mörk eftir að hann kom inná sem varamaður. Það dugði aftur á móti ekki til þar sem Adolf Daði róaði taugar stuðningsmanna Stjörnuliðsins með marki sínu í uppbótartíma leiksins. Adof Daði sigldi sigri Stjörnunnar endanlega í höfn með snotru marki og Garðabæjarliðið fer áfram í átta liða úrslitin. 

KR hefur nú ekki náð ná að hafa betur í síðustu fimm leikjum liðsins í deild og bikar. Eitt stig er uppskeran úr síðustu fjórum deildarleikjum liðsins og nú er liðið fallið úr leik í bikarkeppninni. 

Jökull Elísabetarson gat leyft sér að brosa í kvöld. Vísir/Anton

Jökull: Gladdi mig mest að sjá Adolf Daða skora

„Það sem gladdi mig mest í þessum leik var að sjá Adolf Daða koma svona sterkan inn af bekknum og skora þetta huggulega mark. Ekki af því að ég væri eitthvað stresssaður að við værum að missa þetta úr höndunum heldur af því að það er mikilvægt fyrir Adolf Daða að komast á blað. 

Adolf Daði hefur ekki verið að fá jafn margar mínútur í upphafi þessarar leiktíðar og í fyrra. Það er því gott fyrir sjálfstraustið hans að eiga svona flotta innkomu og ég gleðst innilega fyrir hans hönd. Þetta var líka bara mjög vel klárað hjá honum,“ sagði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, aðspurður um hvað væri efst í huga hans að leik loknum. 

„Mér fannst við stýra þessum leik frá upphafi til enda og hafa allt undir okkar stjórn. Mörkin okkar voru eftir flott uppspil og vel útfærðar sóknir á meðan þeirra mörk komu eftir kaos. Föst leikatriði eða tilviljunakennda atburðarrás. Af þeim sökum fannst mér algjör óþarfi og skrýtið að þeir hafi náð að hleypa þessari spennu í leikinn,“ sagði Jökull enn fremur. 

„Liðið allt var mjög gott í þessum leik og fyrst þú nefnir Óla Val þá var hann geggjaður. Óli Valur tók smá tíma að finna sitt fyrra form eftir að hann kom til baka en hann er óðum að nálgast það og þessi frammistaða var enn eitt skrefið fram á við hjá honum,“ sagði þjálfari Stjörnuliðsins hreykinn af sínum lærisveini. 

Gregg Ryder: Krakkaleg mistök í varnarleiknum

„Við erum að gera einstaklingsmistök í varnarleiknum og klikka á hlutum sem leikmönnum eru kenndir þegar þeir eru krakkar. Við náum að kvitta fyrir fyrsta markið sem við gefum þeim og leikurinn er í jafnvægi í hálfleik. 

Við komum hins vegar flatir inn í seinni háfleikinn og vorum taugatrekktir framan af seinni hálfleik. Það er svo svekkjandi að ná ekki að keyra á þá af fullum krafti eftir að við komum til baka. Það var ekki nógu mikill ákefð í sóknaraðgerðunum og svo lekum við inn marki í lokin sem fer endanlega með þetta,“ sagði Gregg Oliver Ryder, þjálfari KR, svekktur í leikslok. 

„Það er kannski ekkert eitt eða tvennt sem þarf að laga frekar en annð. Við þurfum bara að verjast betur sem lið og fækka barnalegum mistökum. Vinna návígi og leysa hlutina af meiri festu í varnrleiknum. Ekki bara öftustu fjórir heldur bara út um allan völl. Við getum ekki vorkennt okkur, nú þarf bara að bretta upp ermar og gera betur,“ segir Englendingurinn. 

Spurður um meiðsli Axels Óskars hafði Rydder ekki miklar áhyggjur: „Axel fékk högg í fyrri hálfleik en gat haldið áfram. Svo varð hann verri og verri eftir því sem leið á leikinn þar til hann gat ekki meir. Ég held að þetta sé ekki mjög alvarlegt og hann ætti ekki að vera lengi frá,“ sagði Ryder um miðvörðinn sinn. 

Gregg Ryder og Pálmi Rafn Pálmason hafa um nóg að hugsa þessa dagana. Vísir/Anton

Stjörnur og skúrkar

Örvar Eggertsson skoraði tvö marka Stjörnuliðsins í leiknum og gerði Rúrik og öðrum leikmönnum í varnarlínu KR lífið ansi leitt í kvöld.

Óli Valur átti flottan leik bæði í vörn og sókn í hægri bakvarðarstöðunni. Samvinna hans og Róberts Frosta Þorkelssonar á hægri kantinum var til eftirbreytni. Óli Valur skoraði bæði og lagði upp mark. Þá átti Helgi Fróði Ingasson fína spretti eftir hann kom inná miðsvæðið.

Innkoma Adolfs Daða Birgissonar var síst verri en hann lagði upp eitt og sigldi svo sigrinum endanlega höfn eftir að hann mætti til leiks. 

Theódór Elmar var góður þann klukkutíma sem hann spilaði og Luke Rae var skeinuhættur á hægri kantinum. Benóný Breki  hleypti svo fersku blóði í sóknarleik KR-liðsins eftir að hann kom inná af varamannabekknum. 

Dómarar leiksins

Dómari leiksins, Sigurður Hjörtur Þrastarson, og teymi hans áttu gott kvöld og fá þar af leiðandi átta í einkunn. Létu leikinn flæða vel og engir dómar sem orkuðu tvímælis.

Stemming og umgjörð

Silfurskeiðin og Miðjan voru í góðu stuði að þessu sinni og skemmtilegur banter var í liðsfólki beggja stuðningssveita. Syngjandi sveifla hjá þessum öflugu hópum og fjölbreytt lagaval. Skotið á lið andstæðinganna en allt á vinalegum nótum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira